Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu vefs

Fréttir

27. Febrúar 2013

NÁMSKEIÐ

 

NÁMSKEIÐ

Að takast á við ágreining

Þriðjudaginn 19. febrúar, kl. 9.00-12.00 var í húsakynnum Skálatúns haldið námskeið sem nefnist: Að takast á við ágreining. Námskeiðið sóttu starfsmenn Skálatúnsheimilisins.  Leiðbeinandi á námskeiðinu var Ingrid Kuhlman, sérfæðingur hjá Þekkingarmiðlun.  

Námslýsing

Það kannast allir við erfið samskipti í tengslum við þjónustustörf, fólk sem ekki hlustar, æsir sig og bölvar. En hvað er það sem veldur og hvernig er best að bregðast við? Staðreyndin er sú að algengustu ástæður slíkrar hegðunar eru slæmt viðmót starfsmanna, hæg þjónusta, lélegt upplýsingaflæði og röng skilaboð - m.ö.o. léleg þjónusta.  Aðstæður og óánægja verða til þess að fólk fer yfir strikið og þá geta rétt viðbrögð skipt sköpum og tryggt farsæla úrlausn mála bæði fyrir skjólstæðing/viðskptavin og starfsmann.

Þegar um samskiptavanda er að ræða eru ótti og reiði algeng og skiljanleg viðbrögð - en ekki alltaf þau árangursríkustu. Að geta stjórnað eigin tilfinningum og unnið með erfið tilfinningaviðbrögð er það sem mestu máli skiptir í samskiptum við ,,erfiða" viðskiptavini.

Á námskeiðinu er farið yfir ólíka hópa ,,erfiðra" viðskiptavina og hvernig bregðast eigi við hverjum þeirra. Skoðaðar eru leiðir til að leysa úr erfiðum aðstæðum eins og kvörtunum og ágreiningi ásamt því að fjallað er um hvernig best er að takast á við reiði og tilfinningahita viðskiptavina.

Markmið námskeiðs

 • Aukin hæfni í erfiðum samtölum
 • Aukin innsýn í hegðun ,,erfiðra" einstaklinga
 • Meira sjálfsöryggi í samskiptum
 • Aukið sjálfstraust í að takast á við erfiða einstaklinga
 • Betri líðan í starfi
 • Að þátttakendum líði betur í erfiðum aðstæðum þar sem reynir á samskiptin.
 

26. Febrúar 2013

NÁMSKEIÐ

 

NÁMSKEIÐ

Vellíðan á vinnustað

Þriðjudaginn 12. febrúar 2013, kl. 13.00-16.00 var í húsakynnum Skálatúns haldið námskeið sem nefnist: Vellíðan á vinnustað.  Námskeiðið sóttu starfsmenn Skálatúnsheimilisins. Námskeiðinu var skipt upp í fyrirlestra og umræður. Leiðbeinandi á námskeiðinu var Ingrid Kuhlman, sérfæðingur hjá Þekkingarmiðlun.

Markmið

Markmiðið með námskeiðinu er að gera þátttakendum kleift að átta sig á ýmsum þáttum í eigin fari sem skipta máli varðandi líðan í vinnu. Þá er vinnustaðurinn einnig skoðaður, hvernig málum er háttað þar og hvað hægt er að gera til að auka vellíðan ef ástæða er til. Lögð er áhersla á mikilvægi sjálfsábyrgðar í tengslum við vellíðan í leik og starfi.

Námskeiðslýsing

Á námskeiðinu er farið í þætti sem snúa að almennum samskiptareglum og vinnugildum, sem eru mikilvæg til að upplifa vellíðan í vinnunni.

Meðal atriða sem fjallað er um:

 • Að þekkja sjálfan sig
 • Hugsanir, meðvitund og undirmeðvitund
 • Sjálfsmat, sjálfsmynd, sjálfstraust
 • Framkoma, orðanotkun
 • Samskipti og samskiptatækni
 • Að segja Nei
 • Þóknunarárátta
 • Að greina vandamál

19. Febrúar 2013

NÝR FRAMKVÆMDASTJÓRI SKÁLATÚNSHEIMILISINS

 

NÝR FRAMKVÆMDASTJÓRI SKÁLATÚNSHEIMILISINS

Gunnar Þorláksson lét af störfum sem framkvæmdastjóri Skálatúnsheimilisins 31. desember s.l. eftir átta og hálfs árs starf en starfaði síðan út janúar með nýjum framkvæmdastjóra. Gunnari eru þökkuð góð störf í þágu heimilisins.

Helgi Hróðmarsson var ráðinn nýr framkvæmdastjóri Skálatúnsheimilisins frá 1. janúar 2013. Helgi er fæddur 1960, viðskiptafræðingur að mennt og starfaði í 23 ár hjá samtökum fatlaðra og sjúklinga. Síðast í 10 ár hjá SÍBS - fyrst sem félagsmálafulltrúi og síðan í 8 ár sem framkvæmdastjóri. Þar áður starfaði Helgi í rúm 13 ár sem starfsmaður Samvinnunefndar Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands og sem verkefnastjóri hjá Öryrkjabandalagi Íslands.

Eiginkona Helga er Sveinbjörg Björnsdóttir, hótelrekstrarfræðingur og kennari og eiga þau tvær dætur.

     

1. Desember 2011

Stór dagur í starfsemi Skálatúnsheimilisins.

 

Þriðjudaginn 29.nóvember s.l. voru fulltrúar Skálatúnsheimilisins boðaðir til móttöku í húsakynnum fyrirtækis Halldórs Jónssonar h/f

Tilefnið var afhending styrks úr Líknarsjóði Ögnu og Halldórs Jónssonar að upphæð kr. 2.500.000

Hér fer á eftir Fréttatilkynning frá stjórn sjóðsins ásamt þakkarbréfi framkvæmdastjóra Skálatúnsheimilisins.

Fréttatilkynning :

Úthlutun úr Líknarsjóði Ögnu og Halldórs Jónssonar fór fram 29. nóvember síðastliðinn en þá var tveimur félögum veittir styrkir að upphæð 5 milljónir króna.

Eftirtaldir aðilar hlutu hvor um sig 2,5 milljónir króna:

Þú Getur: Forvarnar og fræðslusjóður við geðsjúka

Skálatúnsheimilið: Heimili fyrir 39 einstaklinga með þroskahömlun

Halldór Jónsson fæddist 16. janúar 1916 á Kirkjubæ í Hróarstungu og lést þann 23. febrúar 1977. Agna Guðrún var fædd í Danmörku þann 29. nóvember 1915 og lést þann 24. ágúst 2009. Agna og Halldór stofnuðu fyrirtækið Halldór Jónsson ehf þann 1. febrúar 1955.  Agna stofnaði Líknarsjóð Ögnu og Halldórs Jónssonar árið 1982 og átti hann að taka til starfa að henni látinni.  Hún ánafnaði sjóðnum allar eigur þeirra hjóna og er hlutverk hans  að styrkja hvers konar líknarmál á Íslandi. Stjórn sjóðsins skipa Helgi Jóhannesson, Ingibjörg Magnúsdóttir og Kristján S. Sigmundsson.  Mynd:Fulltrúar sjóðstjórnar,Skálatúnsheimilisins og Þú getur.  

Bréf framkvæmdastjóra til sjóðsstjórnar :

Heill og sæll Kristján og kærar þakkir fyrir síðast. Hvílíkur stórhugur og myndarskapur er SjóðurÖgnuyfirskrift afhendingar og móttöku ykkar í tilefni af veitingu kærkomins styrks til starfsemi Skálatúnsheimilisins. Styrkurinn gefur tækifæri til að láta langþráðan draum um eflingu Dagþjónustu Skálatúns rætast. Með þeim hætti mun styrkurinn nýtast öllu heimilisfólki staðarins, en fyrirhugað er að kaupa inn tæki og tól sem efla mun hug og hönd, skynjunar og hreyfinga, sem staðsett verður í "Skjóli" í Úthlíð þar sem einnig fer fram hluti Dagþjónustunnar m.a. glervinnsla fallegra muna. Með þessum orðum vil ég fyrir hönd Skálatúnsheimilisins færa innilegar þakkir til sjóðsstjórnar fyrir veittan styrk og þá hlýju og stórhug sem honum fylgdi. Það var gott að finna strauma stofnanda sjóðsins og þeirrar starfsemi sem stofnendum fyrirtækis Halldórs Jónssonar fylgdi. Kærar þakkir með óskum um áframhaldandi velgengni sjóðs og fyrirtækis. Upplýsingum um styrkinn og tilurð sjóðsins, ásamt myndum frá styrkveitingunni og frábærum móttökum verður komið á heimasíðu Skálatúnsheimilisins í dag.

Mynd:Gunnar Þorláksson framkvæmdastjóri Skálatúnsheimilisins þakkar Ingibjörgu Magnúsdóttur og Kristjáni S. Sigmundssyni úr sjóðstjórnini.

16. Nóvember 2011

Jólamarkaður

Undirbúningur jólamarkaðar
 

Jólamarkaður Vinnustofa Skálatúns verður haldinn þann 1. desember frá kl. 11:00 – 17:30.

Þessa dagana vinna starfsmenn Vinnustofanna hörðum höndum að því að undirbúa árlegan jólamarkað. Fjölbreytt úrval af fallegum handverksvörum sem henta vel til jólagjafa. Sem dæmi má nefna glervörur skartgripi, töskur, handofnar mottur og jólamerkimiða.  

Skemmtileg nýjung í ár eru prjónatöskur og veski til að halda prjónunum í röð og reglu. Flestar vörurnar eru aðeins gerðar í einu eintaki sem gerir þær að einstökum listmunum.Síðustu ár hefur markaðurinn verið haldinn í gróðurhúsi staðarins sem af því tilefni er breytt í skemmtilegt jólahús. Þar er einnig boðið upp á heitt súkkulaði og piparkökur.

Starfsfólk Vinnustofanna hlakkar til að taka á móti gestum á jólamarkaðinn og býður alla innilega velkomna. 

2. Maí 2011

Vinnustofur Skálatúns og Háskólinn í Reykjavík

HR KANÍNA

SAMSTARF VINNUSTOFA SKÁLATÚNS OG HÁSKÓLANS Í REYKJAVÍK

HR

Hönnun kanínanna

Það var á haustdögum 2010 sem Eva Þengilsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Háskólans í Reykjavík kom að máli við okkur í Vinnustofunum um hönnun á mjúkdýri sem bæri einkennismerki skólans. Óskað var eftir að dýrið væri kanína með vísan í staðsetningu skólans sem er í Öskjuhlíð. Einnig var hugmynd um að engin kanína væri eins og að þær yrðu barnvænar, þ.e. þyldu þvott og væru án smáhluta sem gætu losnað.

 

Hófst þá rannsóknarvinna á útliti kanínunnar og sótti hópurinn meðal annars, innblástur í dýralífs- og ævintýrabækur um kanínur. Gerðar voru fjölmargar skissur og teikningar og að lokum voru valdar úr nokkrar kanínur sem þóttu henta vel til að umbreyta í mjúkdýr.

 

Sköpunar- og framkvæmdagleði var höfð að leiðarljósi í samstarfinu og áhersla lögð á að verkefnið væri uppbyggilegt, lærdómsríkt og skemmtilegt. Kanínurnar eru jafnólíkar og þær eru margar, enda velja listamennirnir efnin sérstaklega fyrir hverja kanínu.

Verkefni þetta er einnig framlag Vinnustofa Skálatúns til sýningarinnar List án landamæra. Verkið má nú sjá á samsýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur en þar má líta 24 blómum skrýddar kanínur. Sýningin í Ráðhúsinu stendur til 4. maí en þá verður verkið tekið niður og sett upp aftur í Háskólanum í Reykjavík í tilefni af Öskjuhlíðardögum. Eftir sýningarnar verða kanínurnar til sölu í Bóksölu stúdenta í HR.

Dagskrárbæklingur Listar án landamæra

12. Nóvember 2010

Flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga:

Eins og fram hefur komið í almennum fréttum færist málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um næstu áramót.
Skálatúnsheimilið hefur verið rekið með þjónustusamningi við Félags og tryggingamálaráðuneytið frá 1.janúar 2005 og rann hann út 31.desember 2009, en árið 2010 hafa framlög verið innt af hendi eins og um framlengingu samnings hafi verið að ræða.
Verkefnisstjórn ráðuneytisins og sveitarfélaga hafa að mati framkvæmdastjóra staðið vel að kynningu þessarar breytinga með kynningarfundum og nú þegar hefur verið haldinn formlegur viðræðufundur með stjórnendum Mosfellsbæjar um gerð þjónustusamnings við sveitarfélagið.
Skálatúnsheimilinu er ætlað 5 % minna starfsfé á árinu 2011 miðað við fjárlög 2010 og þarf því enn að skera niður kostnað.
Það er von og vilji framkvæmdastjóra að ekki komi til uppsagna á starfsfólki og lítur út fyrir að með auknu aðhaldi í rekstri og minna viðhaldi húseigna muni það takast.


Í viðræðum við Mosfellsbæ hefur verið rætt um að gera búendum í Mosfellsbæ, utan heimilisins, tækifæri til að sækja Dagþjónustu Skálatúns
og boðið hefur verið fram húsnæði og rekstur á Skammtímavistun og Hvíldarinnlögnum í húsnæði Suðurhlíðar, en fyrir slíka starfsemi er veruleg þörf.
Eins og flestum er kunnugt búa margir heimilismenn að Skálatúni við
heilsubrest og öldrunar gætir með tilheyrandi heilsuleysi.
Síðastliðinn mánaðartíma hafa tveir heimilismenn látist og má gera ráð fyrir að þeirra skörð verði fyllt áður en langt um líður.

Álitsgerð um starfsemi Skálatúnsheimilisins :
Nýlega barst álitsgerð um starfsemi Skálatúnsheimilisins sem Ásgeir Sigurgestsson sálfræðingur vann fyrir Félags og tryggingamálaráðuneytið í ágúst 2008 og skilað sem fullbúinni af hans hálfu í október 2008.
Ásgeir kom til fundar við stjórnendur Skálatúns ásamt Þór G. Þórarinssyni
fulltrúa ráðuneytisins og kynntu þeir niðurstöðu skýrslunnar og svöruðu fyrirspurnum. Segja má að álitsgerðin hafi að hálfu leyti verið úrelt þar sem á tímabilinu hafði Skálatúnsheimilinu án utanaðkomandi aðstoðar auðnast að leggja niður þær 3 vistheimilisdeildir sem voru reknar á vistheimilishluta staðarins, enda hafði það verið keppikefli stjórnenda og stjórnar Skálatúns að það yrði gert svo fljótt sem mögulegt væri.
Vistdeildum var endanlega lokað 1.apríl 2010 en það sem gerði það mögulegt m.a. var bygging Vesturhlíðar með 6 íbúðum fyrir 7 heimilismenn og breytingar á starfsmannahúsinu Víðihlíð sem tekið var undir og breytt í fjórar íbúðir fyrir heimilismenn og nú rekið sem sambýli.
Fátt kom á óvart í álitsgerðinni, enda hafa stjórnendur Skálatúnsheimilisins fylgst vel með stefnumiðum og straumum í málefnum fatlaðra og ljóst að enn betur má gera með auknum fjármunum.
Gaman var að lesa um þar sem hrósað var starfsemi Dagþjónustunnar og almennt að stefna innri málefna Skálatúns væri til fyrirmyndar.
Fram kom að herbergi eldri sambýla staðarins uppfylltu ekki stærðarákvæði nýrri viðmiðana.

21. Maí 2010

Starfsaldursheiðranir:

Það hefur verið gæfa Skálatúnsheimilisins hve mikla tryggð starfsfólk hefur sýnt heimilinu
og til marks um það er hve margir starfsmenn eiga langan starfsaldur að baki.
Árið 2008 vor 8 starfsmenn heiðraðir eftir 25 ára eða lengri starfsaldur og í desember 2009 vor
eftirtaldir starfsmenn heiðraðir : 
 
25 ár    Steinunn Guðmundsdóttir
20 ár    Helga Guðmundsdóttir
              Jóhannes Þórðarson
              Jónína G. Árnadóttir
15 ár    Ingveldur Sigurðardóttir
              Kristbjörg Richter
              Lilja Huld Sigurðardóttir
              Sólborg Baldursdóttir
              Sigrún Þórarinsdóttir
              Steinunn Ferdinandsdóttir
              Þórdís Guðmundsdóttir
10 ár    Guðbjörg Hákonardóttir
              Guðlaug Ósk Sigurjónsdóttir
              Halldóra Jónsdóttir
              Júlía Kristín Adolfsdóttir
              Kristín R. Jónsdóttir
              Steinunn Bjarnadóttir
              Þorvarður Hjálmarsson
   Heimsasíða

14. Maí 2010

Vormarkaður

Vel heppnuð sölusýning !


Miðvikudaginn 12.maí fór fram handavinnu og sölusýning Dagþjónustu Skálatúnsheimilisins.
Mikið framboð var af fallegum munum sem unnir höfðu verið af heimilismönnum. Þarna mátti sjá fjölbreytta skrautmuni, fjölnota fatnað sem gerður var úr efnum á þann veg að nýting þeirra var einnig möguleg á röngunni, og afar fallega gerða glermuni. 


Gaman var að sjá hve hlutirnir voru vel gerðir og greinilegt að hugmyndaauðgi lá að baki útliti og gagnsemi hlutanna.


Sýningin var í gróðurhúsinu eins og á s.l. ári og hafði það verið skreytt litríkum blöðrum í tilefni dagsins. Gróðurhúsið þótti vera skemmtileg umgjörð um sýninguna.


Hin nýja kryddjurtaframleiðsla mæltist vel fyrir og seldist vel eins og aðrar söluvörur.
Hafberg Þórisson forstjóri Lambhaga hafði lagt lið við byrjun kryddjurtaframleiðslunnar og á hann þakkir skildar fyrir það. Guðlaug Sigurðardóttir hin græna hönd Dagþjónustunnar hefur haft yfirumsjón með framleiðslunni og þeim vísi að trjárækt sem nú prýðir gróðurhúsið.


Listmunir sem sýndu yfirstandandi gos í Eyjafjallajökli seldust vel og svo var einnig um
lyklakippur sem einnig sýndu merki gossins. Það var álit margra sem sáu þessa hluti að þeir ættu sannarlega heima í sölubúðum fyrir erlenda ferðamenn.

o
Strax og sölusýningin var opnuð kl. 11:00 beið fjöldi fólks við innganginn og ætlaði greinilega ekki að missa af neinu. Stöðug aðsókn var allan daginn og gaman var að sjá heimilisfólk af öðrum sambýlum á Reykjavíkursvæðinu sem notaði tækifærið og heimsótti Skálatún þennan dag. Hlutirnir voru merktir hverjum framleiðanda og gefur það mununum mikið gildi.

Ástæða er til að þakka mikið og gott framlag starfsmanna Dagþjónustunnar sem greinilega leggja mikinn metnað í aðstoð við heimilismenn við framleiðsluna og framkvæmd sölusýningarinnar. Góður árangur og fjöldi gesta er auðvitað besti þakklætisvotturinn.

Vormarkaður   Vormarkaður

   Fleiri myndir má sjá undir Lesa meira hér fyrir neðan

7. Maí 2010

Vinnustofur

Vegna samdráttar í atvinnulífinu fækkaði pökkunar verkefnum nokkuð á milli ára. Til að bregðast við minnkandi verkefnum var farin sú leið að bjóða heimilismönnum upp á aukin tómstundaverkefni sem henta okkar hóp, t.d. var boðið upp á jógatíma og markvissa tölvutíma fyrir þá sem það gátu nýtt sér. Fleiri hugmyndir að tómstundaverkefnum eru í farvatninu en þess má geta að myndræn könnun var gerð á áhugasviðum okkar heimilismanna sem allir gátu að einhverju leyti svarað, og verður m.a. farið eftir niðurstöðum hennar við áframhaldandi skipulagningu starfsins.


Nýtt vinnuverkefni á árinu var skönnun á slides myndum og ljósmyndum. Hefur sú vinna gengið mjög vel og vakið áhuga fólks.


Nokkur stór verkefni hafa verið afgreidd og nú hafa verið skannaðar vel á þriðja þúsund myndir auk fjölda eldri mynda í eigu heimilisins.


Einnig var ráðist í lagfæringu gróðurhússins og er þar byrjuð vinna við ræktun kryddjurta. 
 

 

Gróðurhús Toppmynd


Stjórnborð

Forsíða vefsins Stækka letur Minnka letur Hamur fyrir sjónskerta Senda þessa síðu Prenta þessa síðu Veftré